Handritið er tvídálka með stórum spássíum og víða eru stórir, skreyttir og litaðir stafir, dregnir út úr leturfleti. Það er í bandi frá biskupstíð Þórðar biskups Þorlákssonar (1674–1697); eru það pappaspjöld klædd skinni með meitlaðri skreytingu á kápu og kili með tveimur spennslum.
Nafnið hefur sennilega ekki fylgt handritunum frá upphafi heldur mun það vera frá 16. eða 17. öld. Uppruni og merking nafngiftarinnar er ekki með öllu ljós en nærtækt er að ætla að hún vísi til stjórnar Guðs á sköpunarverkinu.

Innihald og skreytingar
Stjórn nær yfir eftirtalin rit Biblíunnar: Mósebækurnar fimm, Jósúabók, Dómarabók, Rutarbók, fyrri og síðari Samúelsbók og fyrri og síðari Konungabók. Ljóst er að vegleg umgjörð hæfði handritum sem varðveittu heilaga ritningu og mikilvægan guðfræðilegan lærdóm enda hefur ekkert verið til sparað.
Kaflafyrirsagnir eru með fagurrauðu bleki og á flestum síðum skartar textinn rauðum, grænum eða bláum upphafsstöfum með einhvers konar flúri.
Helst af öllu gleðja augað stórir sögustafir með myndum af atburðum úr Gamla testamentinu, t.d. má þar sjá Adam og Evu við skilningstré góðs og ills, Abraham með sverð á lofti, reiðubúinn að fórna syni sínum Ísak, múra Jeríkóborgar og fleira.
Lýsingarnar eru gerðar af miklu listfengi. Bent hefur verið á skyldleika þeirra við lýsingar í enskum saltarahandritum frá því snemma á 14. öld og kann að vera að listamaðurinn hafi sótt fyrirmyndir sínar þangað.
Uppruni
Tveir skrifarar, augljóslega vanir menn, hafa unnið að ritun bókarinnar. Saman hafa þeir einnig skrifað annað Stjórnarhandrit, AM 229 fol. og einnig er hendur beggja að finna á handriti sem hefur að geyma Klárus sögu og ýmis ævintýri. Annar þeirra hefur skrifað hið þekkta handrit Ormsbók sem geymir meðal annars Snorra-Eddu og málfræðiritgerðirnar fjórar.
Sennilegt er að handritin sem kölluð eru Stjórn hafi verið skrifuð við kirkjulegt menntasetur. AM 227 fol. var í eigu Skálholtsstóls seint á 16. öld og komst þaðan í eigu Árna Magnússonar en um feril þess fram að því er ekkert vitað.
Hins vegar er ljóst að nokkur þeirra handrita sem sömu menn skrifuðu tengjast Norðurlandi, meðal annars kirkjum í Húnavatnssýslu. Það gæti verið vísbending um að handritið hafi verið skrifað í benediktínaklaustrinu á Þingeyrum.


