Skip to main content

Fréttir

Aprílgabb 2025

Vefumferð um vefgáttina málið.is jókst í gær þegar tilkynnt var að það stæði yfir tiltekt í gagnagrunnum stofnunarinnar og orðum sem enginn hefði flett upp á í meira en fimm ár yrði eytt. Tilgreind voru nokkur dæmi um orð sem myndu nú hverfa úr veforðabókum og virðist sem fólk hafi tekið höndum saman við að bjarga nokkrum þeirra.

Oftast var leitað í gær að orðinu drymbildrútur á listanum en fast á hæla þess komu orðin aðhneiging, veðurkápa og hnóhnika. Þá var nokkuð flett upp á orðunum dugandlegur, jarðvarp og glatarí. Flestir virðast hins vegar hafa látið sér það í léttu rúmi liggja þótt orðin tísaldalegur, traðjóla, skýjablesi og nýsmánlegur væru látin gossa og flettu fáir þeim upp.

Margir glöggir lesendur áttuðu sig á því að þessa frétt bæri upp á 1. apríl en nokkrir tóku málinu mjög alvarlega og við þökkum þeim fyrir að bera hag tungumálsins fyrir brjósti. Árnastofnun leggur kapp á að halda utan um orðaforða íslensku, jafnt orð sem eru í stöðugri notkun en einnig eldri og sjaldgæfari orð sem finna má í hinum fjölmörgu orðasöfnum okkar. Við viljum fullvissa alla um að engum orðum verður fórnað í þágu rafrænnar hagræðingar.

 

Upprunaleg frétt:

Orðum eytt úr gagnagrunnum

Við flutningana í Eddu fór fram mikil tiltekt hjá Árnastofnun sem býr yfir gríðarlegu magni af gögnum og munum. Töluvert af húsgögnum og úreltum tölvubúnaði var látið fara og skorið var lítillega niður í bókakosti stofnunarinnar.

Nú snúum við okkur að rafrænum gögnum en þessa dagana fer fram viðamikil tiltekt í gagnagrunnum stofnunarinnar. Vegna takmarkana á gagnageymslum og einnig til að auka skilvirkni gagnagrunna þarf að rýma til fyrir nýjum verkefnum og var því tekin ákvörðun um að skera niður í umfangi orðasafna stofnunarinnar. Öll orð sem ekki hefur verið flett upp á í fimm ár eða meira á vefnum malid.is verða fjarlægð úr rafrænum gagnagrunnum Árnastofnunar. Dæmi um orð sem engar skráðar flettur eru fyrir síðustu fimm árin má sjá hér fyrir neðan. Við bendum á að enn verður hægt að finna orð sem þessi í prentuðum orðabókum en þau verða ekki framar leitarbær rafrænt.

 

Dæmi um úrelt orð:

aðhneiging

drymbildrútur

dugandlegur

glatarí

hnóhnika

jarðvarp

lýðskyldur

mótorhjólhestur

nítugur

nýsmánlegur

rampóneraður

reiknishaldari

röskvi

skýjablesi

slauksamur

svíri

tísaldalegur

tísaldarlegur

traðjóla

veðurkápa

Skjáskot af malid.is þar sem blasa við skilaboð sem segja "Þú hefur hlaupið 1. apríl!"
Málið.is birti þessi skilaboð þegar flett var upp á orði sem sagt var að yrði eytt.