Skip to main content

Pistlar

Upphaf íslenskra fræða í landi rísandi sólar – Japan (日本)

Upphaf íslenskra fræða í landi rísandi sólar – Japan (日本)

Íslensk fræði eru kennd víða um heim, þar á meðal í Japan. Saga vestrænna fræða í Japan er ekki mjög löng. Japan var meira eða minna lokað land frá byrjun 17. aldar fram á miðja 19. öld.[1] Þá fyrst hófust aukin erlend samskipti og viðskipti, og jafnframt kennsla um vestræna menningu í háskólum. Kennsla í vestrænum bókmenntum varð til þess að japanskir námsmenn komust fyrst í kynni við íslenska tungu og menningu sem var gjörólík þeirra eigin.[2]

svarthvít, kornótt mynd af hliði í japönskum stíl. fyrir framan hlið eru nokkrar manneskjur. fyrir aftan hlið í fjarska eru hærri byggingar.
Keisaralegi háskólinn í Tókýó árið 1903, um það leyti sem Lafcadio Hearn ruddi brautina fyrir íslensk fræði í Japan.
Wikimedia Commons / Popular Science Monthly

Keisaralegi háskólinn í Tókýó sem var stofnaður árið 1877 er elsti og virtasti háskóli í Japan en í dag heitir hann einfaldlega Tókýó-háskóli. Þessi skóli hefur gegnt mikilvægu hlutverki í kennslu um vestræn fræði. Þar hófst kennsla í miðaldabókmenntum í lok 19. aldar og skólinn var lengi vel sá eini þar sem hægt var að lesa (forn)íslensku. Í því sem hér fer á eftir verður minnst á helstu atriði er varða íslenskukennslu gegnum tíðina í Japan, bæði í Tókýó-háskóla og öðrum háskólum og fjallað um nokkra fræðimenn sem komið hafa við sögu íslenskukennslu þar í landi.

 

Erlendir fræðimenn kenna íslensk fræði í Japan

Fyrsti háskólamaðurinn sem hafði eitthvað með íslensku að gera var Bandaríkjamaður að nafni Lafcadio Hearn. Lafcadio þessi var af grísk-írskum ættum. Vegna uppruna síns og menntunar talaði hann nokkur tungumál, þ. á m. frönsku og grísku og síðan lærði hann einnig japönsku af eiginkonu sinni. Enskar og íslenskar miðaldabókmenntir voru í sérstöku uppáhaldi hjá honum. Með lestri miðaldabókmennta hafði hann lært forníslensku og einnig nokkuð í nútímaíslensku. Lafcadio, sem tók sér japanskt nafn Yakumo Koizumi (小泉 八雲), var ráðinn til starfa við Keisaralega háskólann í Tókýó og starfaði þar á árabilinu 1896–1903. Því miður varð hann bráðkvaddur árið 1904 aðeins 54 ára gamall[3] en hafði þá þegar rutt brautina fyrir íslensk fræði í Japan.

Maður stiður sig við flotta súlu og snýr til hægri. Við hlið hans situr kona í stól.
Lafcadio Hearn og kona hans.
Wikimedia Commons / Rihei Tomishige

Árið 1906 var John Lawrence (ジョン・ローレンス) ráðinn sem enskukennari við Keisaralega háskólann og starfaði þar til 1916. Lawrence var af breskum ættum og hafði mikil áhrif á útbreiðslu enskra bókmennta og germanskra tungumála í Japan. Hann kunni bæði gotnesku og íslensku. Hann var vel að sér um sögulega þróun enskrar tungu og þar kom kunnátta í forníslensku honum vel sem hann oft notaði í kennslu sinni um þróun enskunnar.[4],[5]

 

Japanar taka við

Sanki Ichikawa (市河三喜) var nemi Lawrence og fyrstur Japana til að fást við íslensk fræði. Hann útskrifaðist árið 1912 með bakalársgráðu en lokaritgerð hans fjallaði um sögulega þróun ensku forsetningarinnar „for“ þar sem hann fjallaði líka um forníslensku.[6] Árið 1912 fór Ichikawa til Oxford til að leggja stund á frekara nám. Vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar þurfti hann að framlengja Englandsdvölina um eitt ár sem hann notaði m.a. til að læra meira í forníslensku. Eftir heimkomu var hann ráðinn sem lektor í enskum fræðum við Keisaralega háskólann þar sem hann átti langan og farsælan feril. Hann kenndi enskar og forníslenskar bókmenntir, las með nemendum sínum Íslendingasögur og þýddi með þeim Snorra-Eddu allt þar til hann lauk störfum árið 1946.

 

Sjálfstætt fólk og Íslendingasögur vekja áhuga á íslenskunámi

Árið 1958 var Susumu Okazaki (岡崎晋) fyrsti Japaninn til að hljóta styrk frá íslenska menntamálaráðuneytinu til að stunda nám í íslensku við Háskóla Íslands. Hann var mjög áhugasamur um tungumálið og hafði haft frumkvæði að því að falast eftir styrk frá ráðuneytinu. Áhugi hans kviknaði árið 1955 þegar hann las Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness. Á þeim tíma var þetta eina íslenska bókin sem til var á japönsku þótt hún hefði ekki verið þýdd beint úr íslensku. Í kjölfarið stundaði hann íslenskunám, fyrst í Kaupmannahöfn árið 1956 og svo á Íslandi árið 1958.[7] Árið 1967 hóf hann störf sem aðstoðarprófessor í norrænum fræðum við Tokai-háskóla í Tókýó þar sem hann starfaði sem prófessor til starfsloka 1995. Hann samdi kennslubók fyrir byrjendur í íslensku ásamt samstarfsmanni sínum við sama háskóla, Tamiji Yokoyama.

Tamiji Yokoyama (横山 民司) hafði stundað nám í þýskum og norrænum bókmenntum og verið aðstoðarprófessor í þýsku og skandinavískum málum við ýmsa háskóla frá árinu 1965 þegar hann var ráðinn prófessor í norrænum fræðum við Tokai-háskóla árið 1983.[8] Árið 1992 byrjaði Yokoyama að bjóða upp á íslenskunámskeið við háskólann og gerði það í tvö ár. Eftir það kenndi hann við Mejiro-háskóla, sem einnig er í Tókýó, til starfsloka árið 2008. Hann skrifaði fjölda kennslubóka fyrir japanska námsmenn og þar á meðal bækur fyrir byrjendur í dönsku, norsku, sænsku og íslensku. Hann fékk brennandi áhuga á íslensku máli og menningu eftir að hafa lesið Íslendingasögur og sérstaklega Njálu og Eglu. Honum fannst afar áhugavert að Íslendingar skyldu hafa skrifað langar sögur á sínu eigin máli á miðöldum á meðan aðrar Evrópuþjóðir notuðu latínu eða jafnvel skrifuðu ekki neitt. Hann ferðaðist tvisvar til Íslands til að fræðast enn betur um íslenska sögu, bókmenntir og tungumál.

Sadao Morita (森田貞雄) var prófessor í norrænum málvísindum sem kenndi ensku og skandinavísk mál við Waseda-háskóla í Tókýó með sérstaka áherslu á íslensku. Hann lagði stund á forníslensku í Bandaríkjunum á árunum 1951–1952 og kom til Íslands sem styrkþegi tíu árum síðar til að læra nútímaíslensku við Háskóla Íslands. Hann kenndi íslensku við Waseda-háskóla á meðan hann starfaði þar sem lektor í ensku og skandinavískum málum með sérstaka áherslu á íslensku á árabilinu 1970–1998.[9] Bók eftir hann um íslenska málfræði hefur lengi verið eitt af mikilvægustu námsgögnum fyrir íslenskunema í Japan.

Heimskort. lína fer frá Íslandi til japans.

Íslenskukennsla í Japan í dag

Á tímabilinu 1958–2025 hafa þrjátíu og sjö japanskir námsmenn hlotið styrk til íslenskunáms við Háskóla Íslands. Sumir af þeim hafa orðið þýðendur en aðrir íslenskukennarar við mismunandi háskóla í Japan. En áhugi á íslensku hjá japönskum námsmönnum er enn mikill. Í dag er íslenska kennd við a.m.k. sjö háskóla þar í landi. Þetta eru: Iðnaðarháskólinn í Muroran, Kanazawa-háskóli, Osaka-háskóli og í Tókýó: Tókýó-háskóli, Háskóli erlendra fræða í Tókýó, Tokai-háskóli og Waseda-háskóli.

 


[1] Kristín Ingvarsdóttir. 2017. „Frá Sóleyjum“: Upphaf samskipta Íslendinga og Japana 1904–1942, bls. 81. Skírnir 191(1): Reykjavík.

[2] Erskine, J. 1922. Books and Habits from the Lectures of Lafcadio Hearn. Heinemann: London, bls. 1. https://www.gutenberg.org/files/14338/14338-h/14338-h.htm.

[3] Parr, P. 2022. Lafcadio Hearn becomes Koizumi Yakumo in 1890s Japan. Japan Today. https://japantoday.com/category/features/japan-yesterday/lafcadio-hearn-becomes-koizumi-yakumo-in-1890s-japan.

[4] Flanagan, D. 2017. The Man Who Came After Sosekihttp://djflanagan.blogspot.com/2017/04/the-man-who-came-after-soseki.html.

[5] Flanagan, D. 2020. Edging Toward Japan: Tokyo University should celebrate its huge literary talents. The Mainichi. https://mainichi.jp/english/articles/20201017/p2a/00m/0na/023000c.

[6] Kamiyama, T. 2015. Sanki Ichikawa. Father of Historical and Related Studies of English in Japan. https://ir.library.osaka-u.ac.jp/repo/ouka/all/77240/oupel19_001.pdf.

[7] Erfitt að læra íslenzku í Japan, bls. 2–3. Heimskringla. 1958. https://timarit.is/issue/154769.

[8] Stefnumót austurs og norðurs, bls. B3. Morgunblaðið. 1992. https://timarit.is/page/1763233.

[9] Það er ekkert svo erfitt að læra íslensku segir Sadao Morita, japanskur prófessor, bls. 14. Morgunblaðið. 1988. https://timarit.is/page/1687680.

Birt þann 8. apríl 2025
Síðast breytt 8. apríl 2025
Heimildir